Ritunarferlið

Skrif ritgerða felur alltaf í sér ákveðið ferli sem gagnlegt er að hafa í huga.

Fyrsta skrefið er undirbúningurinn. Á þessu stigi er viðfangsefni valið og það afmarkað. Unnið er með hugmyndir og upplýsinga aflað. Lögð eru drög að rannsóknarspurningu. Hér er einnig gott að móta efnisgrind og öðlast þannig yfirsýn yfir verkefnið framundan.

Skref tvö felur í sér sjálf ritgerðarskrifin. Nú er komið að því að skrifa texta, koma frá sér málsgreinum og efnisgreinum sem tengjast þeirri rannsóknarspurningu sem lagt er upp með. Skrifin eru skipulega sett fram sem inngangur, meginmál (sem getur skipst í nokkra kafla, meginmál aldrei notað sem kaflaheiti) og lokaorð.

Skref þrjú snýst um efnislegar endurbætur. Hér þarf að skoða vel hvort eitthvað megi betur fara. Vantar einhvers staðar upplýsingar eða dæmi? Eru tiltekin atriði endurtekin að óþörfu? Er gott flæði og samhengi í ritgerðinni? Má lagfæra framsetningu?

Skref fjögur gengur út á nákvæman yfirlestur og frágang. Farið er vandlega yfir málfar, stíl og stafsetningu. Villur eru leiðréttar og gengið úr skugga um að allur frágangur sé í samræmi við reglur og fyrirmæli.