Tilvitnun

Texti tekinn orðrétt úr heimild og settur í gæsalappir eða umorðaður og hafður án gæsalappa.

Hvað er tilvitnun?

Þegar höfundur styðst við efni frá öðrum er hann að vitna til þess og þar með verður til tilvitnun. Athugið að ekki þarf að vísa í sérstaka heimild þegar um almenna þekkingu er að ræða, t.d. ef Reykjavík er nefnd í ritgerð og sagt að hún sé höfuðborg Íslands og standi við Faxaflóa.

Bein tilvitnun

Þegar texti er tekinn beint úr heimild óbreyttur eða þýddur er um beina tilvitnun að ræða og verður að koma skýrt fram hver höfundur textans er. Tilvitnun er höfð innan gæsalappa. Athugið að íslenskar gæsalappir eru „niðri“ framan við tilvitnun en „uppi“ fyrir aftan hana. Ávallt skal nota íslenskar gæsalappir nema ritgerð sé skrifuð á öðru tungumáli. Ef bein tilvitnun er lengri en 3-4 línur er hún höfð inndregin, með smærra letri og án gæsalappa.

Ef vitnað er beint í hluta úr málsgrein er sýnt með þremur punktum sem settir eru innan hornklofa hvar sleppt er úr frumtextanum.

Dæmi

„Þeir höfðu gaman af tónlist […] og hlustuðu oft á karlakóra.“

 

Þýðingar úr erlendum texta

Ef notaðar eru heimildir á erlendum tungumálum þarf að þýða texta yfir á íslensku. Þýðið ekki beint með Google translate.

Höfundur ritgerðar þarf að nota beinar tilvitnanir hóflega. Erfitt er að segja nákvæmlega hvað er passlegt en miða má við að hafa ekki meira en eina til tvær beinar tilvitnanir á hverri blaðsíðu.

Bein tilvitnun felld að texta:

Best er að hafa ekki of margar beinar tilvitnanir í ritgerðum, jafnan þykir betra að „umorða texta þess höfundar sem vitnað er í og vitna þannig óbeint í hann“ (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007).

 

 Óbein tilvitnun

Yfirleitt vinnur höfundur ritgerðar úr þeim upplýsingum sem hann styðst við, umorðar og fellir að öðru sem hann hefur sjálfur skrifað. Þá er um óbeina tilvitnun að ræða. Samt sem áður þarf að vísa til heimildar á skýran hátt og setja upplýsingar um heimild inn í sviga aftan við tilvitnun.

 

Vitnað orðrétt til heimildar > bein tilvitnun

„Vísanir eiga að vera kerfisbundnar og gera lesanda kleift að athuga fljótt og vel hvaða ritverks eða heimildar er vísað til“ (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007).

 

Unnið úr heimild og texti umorðaður > óbein tilvitnun

Vísanir þurfa að vera kerfisbundnar og auðvelda lesandanum að sjá til hvaða heimildar er vísað (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007).