Málfar

Hafið málsgreinar vel skipulagðar. Athugið þessar setningar:

a. Vonda stjúpan reyndi að myrða prinsessuna.

b. Morðtilræði við prinsessuna var skipulagt af vondu stjúpunni.

Setning a er mun betri og markvissari því þar er gerandinn fremst í setningunni og samband skýrt milli geranda og sagnar. Haldið ykkur við efnið, ekki fara fram og til baka í umfjölluninni eða nefna eitthvað sem ekki er svo útskýrt frekar.

Reynið að umorða og stytta setningar eins og hægt er. Athugið þessar setningar:

a. Eins og kom fram í umfjölluninni um eldfjöllin eiga allir jarðvísindamennirnir mjög erfitt með að segja mjög nákvæmlega fyrir um eldgos.

b. Jarðvísindamenn eiga erfitt með að segja nákvæmlega fyrir um eldgos.

Setning b er betri því þar er sleppt öllum óþörfum orðum og hún verður markvissari.

Hafið samræmi gott. Athugið eftirfarandi setningar:

a.Nemendur lærir að skrifa ritgerðir og þau skila að minnsta kosti einni á önn.

b.Nemendur læra að skrifa ritgerðir og þeir skila að minnsta kosti einni á önn.

Samræmi þarf að vera milli frumlags (þess sem framkvæmir, hér eru það nemendur) og sagnorða í persónuhætti (læra, skila) og einnig milli frumlags og fornafna (þau, þeir).

Varist tíðarugl

Hafið samræmi í notkun þátíðar og nútíðar. Ekki flakka milli tíða í sömu málsgrein.Verið meðvituð um hvenær þið notið nútíð og hvenær þátíð. Notið þátíð til að lýsa tilraunum og athugunum sem þegar er lokið en nútíð þegar þið fjallið um ykkar hugmyndir. Dæmi: Í tilraun Jones (2003) var athugað hvort… og það er greinilegt að…

Beyging fallorða

Fallorð (t.d. nafnorð og fornöfn) þurfa að vera í réttum föllum miðað við þau orð sem stýra falli þeirra, t.d. sagnir og forsetningar. Ef vafi leikur á beygingu orða er gott að fletta þeim upp á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls https://bin.arnastofnun.is/beyging/495387

Notið skýrt mál, venjulega orðaröð og einfalda setningaskipan. Athugið þessar setningar:

Voru fuglarnir farnir á slóðir suðlægar.

Fuglarnir voru farnir á suðlægar slóðir. (Betri)

Ég um mig frá mér til mín

Ahugið að oftast er gott að forðast orðalagið ég held eða mér finnst. Fléttist skoðanir og viðhorf höfundar inn í umfjöllun ritgerðar má þó gera undantekningu á þessu.