Upplýsingaleit og lestur heimilda

Þegar ljóst er um hvað á að skrifa er komið að því að lesa sér til um efnið. Í sumum tilfellum eru nemendur með námsbækur, aðrar bækur eða tímarit um efnið en í mörgum tilfellum hefst leitin á netinu. Þar má finna upplýsingar um flesta hluti en mikilvægt er að velja áreiðanlegar heimildir. Upplýsingar þurfa að koma frá viðurkenndri síðu, t.d. skóla, stofnunar eða samtaka, og vera merktar höfundi. Greinar á Wikipediu eru yfirleitt ekki eignaðar tilteknum höfundum og því ætti að varast notkun á efni þaðan. Bloggsíður einstaklinga eru óáreiðanlegar og því ekki æskilegt að vitna til efnis sem þar er að finna.

Á bókasöfnum er að finna mikinn fjölda bóka og tímarita og þar er því gott að hefja leit að upplýsingum. Lærið að nota safnið og leitið aðstoðar starfsfólks þegar á þarf að halda. Munið að oft er gott að byrja á að skoða stuttar yfirlitsgreinar um efnið, t.d. í námsbókum og alfræðiritum. Einnig getur verið gagnlegt að skoða efnisyfirlit bóka.

Stundum úthlutar kennari nemendum umfjöllunarefni og útvegar þær heimildir sem vinna skal með. Þetta flýtir fyrir og einfaldar vinnu nemanda sem getur þá strax hafist handa við að lesa heimildirnar.

Þegar þið leitið upplýsinga um ritgerðarefni ykkar munið þá að skrá jafnóðum það sem þið ætlið að styðjast við, svo sem nafn höfundar, heiti tímarits eða bókar, upplýsingar um árgang, tölublað og blaðsíðutal. Tímafrekt er að leita aftur uppi heimildir sem þið hafið notað. Því er best að skrá allar upplýsingar strax.

Við lestur bóka eða greina er heppilegt að skrá hjá sér allar hugmyndir sem kvikna jafnóðum og jafnvel kalla þær skipulega fram með þankahríð og teikna upp sem hugtakakort.