Umfjöllunarefni úthlutað af kennara
Ef kennari úthlutar nemanda umfjöllunarefni fyrir ritgerð þá fer það eftir því hvers konar ritgerð á að skrifa hvert næsta skref verður.
Ef ritgerðin á að vera almennt yfirlit yfir tiltekið efni þá er líklega hægt að byrja strax að skipuleggja efnistök (sjá umfjöllun um hugtakakort og efnisgrind) og hefjast svo handa við skrifin.
Afmörkun efnis
Ef hins vegar ætlast er til að ritgerðin sé greining eða rökfærsla (sjá lýsingu á mismunandi riterðarflokkum) þá þarf að byrja á því að afmarka efnið áður en skipulagning getur hafist.
Afmörkun felur það í sér að þrengja efnið, hafa það passlega viðamikið til að mögulegt sé að skrifa um það markvissa og áhugaverða umfjöllun. Markmiðið er að gera efninu góð skil, fjalla ítarlega um það.
Dæmi um afmörkun
Umfjöllunarefnið „Framhaldsskólar“ er mjög vítt og almennt. Ef þú átt að skrifa greiningu eða rannsóknarritgerð þarftu að þrengja efnið betur. Betra er að skrifa vel um afmarkað efni heldur en að stikla á stóru um marga hluti. Til dæmis mætti hugsa sér eftirfarandi: „Lög um nemendafélög í framhaldsskólum“ eða „Munurinn á áfangakerfi og bekkjakerfi í framhaldsskólum“
Nemandi velur sér umfjöllunarefni
Stundum getur verið erfiðara að fá að velja efnið sjálfur því það er svo margt sem kemur til greina. En þú hefur þá möguleika á að velja það sem þú hefur áhuga á og/eða vilt fræðast um, sem getur vissulega verið kostur.
Skilgreindu markmið ritgerðarskrifanna
Áttu t.d. að fræða lesandann um tiltekið efni, t.d. fólk, staði eða fyrirbæri, eða áttu að sannfæra lesandann um eitthvað og koma honum á tiltekna skoðun? Efnið þarf að sníða að tilganginum.
Notaðu hugmyndaflugið
Punktaðu hjá þér nokkur viðfangsefni sem þú hefur áhuga á og veldu svo eitt af þeim.
Afmarkaðu efnið
Ef þig langar að skrifa um efni sem er nokkuð vítt þá skaltu reyna að afmarka það betur. Sem dæmi má nefna að efnið „Kvikmyndir“ er of vítt, betra væri að afmarka það og fjalla um „Íslenskar kvikmyndir á árunum 2000-2010“