Tilgangur þess að búa til hugtakakort eða efnisgrind er að koma skipulagi á hugmyndir okkar um viðfangsefnið. Það flýtir fyrir vinnunni og eykur líkurnar á því að ritgerðin verði markviss og áhugaverð. Ekkert er þó athugavert við það að þessar útlínur breytist eitthvað á meðan á ritgerðarskrifunum stendur. Sumum finnst mjög gott að setja efnið upp á sjónrænan hátt og þá er gott að nota hugtakakort.
Hægt er að nota ýmis forrit við uppsetningu hugtakakorta í tölvu en einnig getur verið þægilegt að nota einfaldlega stórt blað og teikna upp skipulagið. Þá er byrjað á því að setja aðalviðfangsefnið (Av) í miðju kortsins. Næst eru gerðar 3-5 línur út frá miðjunni og þar skrifuð tengd atriði (Ta-1). Út frá þeim má síðan aftur gera nokkrar línur og skrifa atriði sem tengjast þeim (Ta-2). Yfirhugtökin/atriðin (Ta-1) mynda aðalkafla ritgerðarinnar og ef um lengri ritgerð er að ræða geta undirhugtökin (T-2) myndað undirkafla hennar.
Þegar gerð hugtakakorts er lokið má hanna efnisgrind útfrá því en efnisgrindin felur í sér skipulag ritgerðarinnar. Þar kemur fram hvaða kaflar munu verða í ritgerðinni og í hvaða röð þeir verða.