Ritgerðin skrifuð

Þegar byrjað er á bókmenntaritgerð er mikilvægt að vera búinn að lesa söguna mjög vel og mynda sér skoðanir á efni hennar, persónum og atburðum. Ritgerðarskrifin snúast svo um að fjalla um aðalatriði sögunnar og skoðanir á þeim með skipulegum hætti.

Inngangur og afmörkun efnis

Í inngangi eiga eftirfarandi atriði að koma fram: Titill sögu, höfundur og útgáfuár, söguþráður í örstuttu máli (4-5 málsgreinar) og efnisyrðing / rannsóknarspurning.  Í efnisyrðingu kemur skýrt fram hvaða atriði ætlunin er að taka fyrir í ritgerðinni, hvaða spurningum á að svara.

Ef ætlunin er að skrifa ritgerð um skáldsöguna Ýmislegt um risafurur og tímann eftir Jón Kalman Stefánsson gæti rannsóknarspurningin t.d. verið: Hvers konar persóna er sögumaðurinn og hver er sýn hans á lífið og tilveruna? Efnisyrðing fyrir ritgerð um sömu sögu gæti t.d. verið: Sögumaður er ungur drengur með ríkulegt ímyndunarafl sem getur bæði hjálpað honum og komið honum í vandræði. 

Meginmál (ekki nota sem kaflaheiti)

Hér er aðalumfjöllun ritgerðarinnar, kjarni hennar. Nokkrar efnisgreinar sem svara rannsóknarspurningunni eða styðja efnisyrðinguna með vangaveltum höfundar og vísunum í söguna. Vísið til sögunnar með blaðsíðutali í sviga. Tengið efnisgreinar vel saman þannig að textinn myndi eina heild.

Lokaorð

Dregnar saman helstu niðurstöður. Gott að tengja við inngang og ramma þannig inn ritgerðina. Ekki enda á dómi um það hvort sagan var góð eða ekki og ekki á því hvað þið lærðuð af skrifunum.