Inngangskafli

Áður en byrjað er að skrifa þarf markmið ritgerðarinnar að vera ljóst. Skrifin verða að hafa ákveðinn tilgang (ekki bara þann að framfylgja skipun kennarans). Veltið markmiðunum vel fyrir ykkur. Ætlið þið að fræða, lýsa, vekja til umhugsunar eða segja skoðun ykkar?

Sérhver ritgerð snýst um tiltekinn kjarna. Höfundur þarf að ákveða hver á að vera meginhugsunin í ritgerðinni. Þess vegna er mikilvægt að hann setji strax í upphafi fram tilgátu sem fjallað verður um eða rannsóknarspurningu sem svarað verður.

Inngangskaflinn er fyrsti hluti ritgerðarinnar og hefur ákveðinn tilgang. Hann þarf að grípa athygli lesandans. Gott er að byrja inngangskaflann á stuttri, almennri umfjöllun um efnið. Tökum sem dæmi ritgerðarefnið sambönd. Forðist að byrja inngangskafla í ritgerð á óspennandi  setningum eins og „Í þessari ritgerð ætla ég að fjalla um sambönd. Reynið heldur að byrja á áhugaverðum og grípandi staðreyndum um sambönd.

Eftir almenna umfjöllun um viðfangsefnið er í lok inngangskafla sett fram tilgáta eða rannsóknarspurning sem reynt verður að svara eða sanna í meginmáli ritgerðarinnar með tilvísunum í heimildir. Síðar í ferlinu má vera að höfundi finnist nauðsynlegt að breyta spurningu eða tilgátu, orða öðruvísi eða bæta einhverju við. Ekkert er við það að athuga svo lengi sem ekki er um grundvallarbreytingu að ræða. Þegar tilgáta er sett fram á hún að vera skýr og lýsa skoðunum ykkar. Í tilgátunni felst fullyrðing sem þarf að sanna eða hrekja í meginkafla ritgerðarinnar.

Heppilegt getur verið að gera aðeins útlínur inngangsins í byrjun ritunarferlisins. Setja fram tilgátuna eða rannsóknarspurninguna en skrifa ekki innganginn í heild sinni fyrr en eftir að meginmál hefur verið skrifað. Ef ákveðið er að skrifa innganginn í upphafi er líklegt að hann muni taka einhverjum breytingum síðar í ferlinu.

Dæmi  um tilgátu

Gunnar á Hlíðarenda og Hallgerður langbrók voru aldrei ástfangin

 Dæmi um tilgátu

Laufblöð skipta um lit á haustin og verða rauð vegna þess að í blöðunum er mikið af rauðu litarefni.

Dæmi um rannsóknarspurningu

Á hvaða tilfinningum byggðist einkum samband Gunnars og Hallgerðar?

Dæmi um rannsóknarspurningu

Hvers vegna skipta laufblöð um lit á haustin?