Lokaorð

Alveg eins og inngangur ritgerðar á að vera skýr þá eiga lokaorðin líka að vera skýr og hljóma eins og um lok/enda sé að ræða.

Lokaorð í styttri ritgerðum (t.d. flestum ritgerðum í framhaldsskólum) innihalda 3-5 hnitmiðaðar málsgreinar sem draga saman helstu niðurstöður og fanga huga lesandans.

Hér er vitnað aftur til tilgátunnar eða rannsóknarspurningarinnar sem sett var fram í upphafi en þó umorðað. Í síðustu setningum lokaorða getur verið gott að tengjast lesandanum, annað hvort með því að víkka út efnið eða koma með ábendingar um frekari rannsóknarefni eða meira lesefni.

Dæmi um umorðaða tilgátu í lokaorðum

Ef tilgátan í inngangi var til dæmis eftirfarandi: Gunnar á Hlíðarenda og Hallgerður langbrók voru aldrei ástfangin

Þá væri hún umorðuð á eftirfarandi hátt í lokaorðum: Af öllu því sem hér hefur komið fram er ljóst að Gunnar og Hallgerðar hrifust hvort af öðru en voru ekki ástfangin.