Rökfærsluritgerð

Rökfærsluritgerðir eru skrifaðar í þeim tilgangi að sannfæra lesendur ritgerðarinnar um eitt umfram annað. Höfundur setur fram tilgátu í lok inngangskafla og færir svo rök fyrir þeirri tilgátu í meginmáli eða setur fram rannsóknarspurningu sem svarað er í meginmáli.

Dæmi

Þú hefur lesið skáldsöguna Sjálfstætt fólk og ætlar að skrifa ritgerð um það hve mikil áhrif harka Bjarts í Sumarhúsum hefur á börnin hans. Þú setur í inngangskafla fram þá tilgátu að líf barnanna hafi mótast mjög sterkt af hörku Bjarts. Í meginmálinu færir þú svo rök fyrir tilgátunni með því að nefna nokkur dæmi með tilvísun í söguna um samskipti Bjarts og barna hans.

Dæmi

Þú vilt sannfæra lesandann um að jörðin sé ekki hnöttótt. Þú ákveður að gera það með því að sýna fram á að margir aðrir þættir hafi áhrif á lögun jarðarinnar. Þessa þætti getur þú svo sameinað í eina tilgátu í inngangskafla ritgerðarinnar. Tilgátan gæti þá t.d. verið eftirfarandi: Jörðin er ekki hnöttótt. Síðan reynir þú að sanna tilgátu þína í meginmálinu með tilvísun í heimildir.