Hvað einkennir góða ritgerð? Með nokkurri einföldun má segja að skipuleg umfjöllun um áhugavert efni sé kjarninn. En það er ekki aðeins efnið sem ræður úrslitum heldur einnig framsetning þess og orðalag. Mikilvægt er að hugað sé vel að því hvaða orð eru notuð um hlutina og hvernig þeim er raðað saman í málsgreinar (Ein eða fleiri setningar, frá stórum staf að punkti) og efnisgreinar (Nokkrar málsgreinar sem snúast um tiltekinn efnisþátt).
Í ritgerðum er að sjálfsögðu notað ritmál, sem þýðir að það er formlegra en talmál og einkennist af skýrleika og nákvæmni.
Ritgerð er skrifuð í efnisgreinum sem aðgreindar eru með greinaskilum. Í hverri efnisgrein er fjallað um eitt efnisatriði. Efnisgreinar eru tengdar saman með ýmiskonar tengiorðum eða annars konar tengingum við fyrri efnisgreinar, svo samhengi sé eðlilegt. Dæmi um efnisgreinar og tengingar má sjá í sýnisritgerð.
Á hverri síðu ritgerðar eru um það bil 4-5 efnisgreinar. Hver efnisgrein er 5-10 línur. Í lengri ritgerðum er meginmáli skipt upp í kafla og köflunum skipt í efnisgreinar.